Sígræn tré og umhirða þeirra

Að fjárfesta í sígrænum plöntum og umhirða þeirra getur verið nokkuð dýrt og tímafrekt fyrir garðeigendur ef ekki er rétt að farið í byrjun. Þess vegna bendum við fólki á að nauðsynlegt er að taka réttar ákvarðanir í upphafi þegar farið er út í gróðursetningu og val á plöntum. Til að velja vel þarftu að hafa þrenns konar grunnhugmyndir í huga: Fyrst þarftu að vita stærð þess rýmis sem þú ætlar að gróðursetja í. Svo þarftu að gera þér grein fyrir hvort vaxtarskilyrði í garðinum þínum henti þeirri tegund sem þú hefur í huga. Að lokum þarftu að gera þér grein fyrir hversu stór plantan eða tréð verður fullvaxin. Tré lítur sakleysislega út í pottunum á garðyrkjustöðvunum en getur orðið tröllvaxið þegar fullum vexti er náð.

Nokkuð vandasamt getur reynst að klippa til sígrænu plönturnar þannig að vel til takist. Hér eru nokkrar grundvallarreglur og útskýringar á þeim:

Flest sígræn tré er best að klippa snemma að vori áður en nývöxtur hefst, varast skal þó að klippa í frosti. Þegar þetta er gert nær tréð að hylja sárin eftir klippinguna og ný brum ná að harðna fyrir veturinn. Sígræn hekk ætti þó að klippa um mitt sumar, þegar nývöxturinn hefur náð sér vel á strik, því þá er hægt að forma hann betur til.

Tvenns konar klippiaðferðir eru notaðar „klipping til endurnýjunar og viðhalds“ og „stofnun“.
Viðhaldsklipping: Hér er átt við þegar klippt er utan af trénu og það snyrt til. Þarna er einnig átt við þegar klipið er af nýsprottnum hluta trésins.
Þegar talað er um stofnum trés er átt við að stærri greinar eru klipptar af við stofn. Þetta er hægt að gera neðan frá, eða ofarlega í tré til að hleypa birtu inn og hamla vexti.

                                                                                                                                  
Hægt er að skipta sígrænum trjám í tvo aðalflokka: Munurinn felst í laufblöðunum. Blaðrunnar eru eins og orðið gefur til kynna með laufblöðum eða ummynduðum laufblöðum. Þessir runnar eru að ryðja sér til rúms hér á landi, en eru mikið notaðir í nágrannalöndum okkar.
Nálatrén þekkjum við betur en þau hafa þessi sérstöku nálar
Annar meginmunur þessarra tveggja aðalflokka er hvernig þeir eru klipptir. Blaðrunnarnir taka klippingu vel, meðan varlegar þarf að fara með nálatrén.

Reglur til klippingar á blaðlaufsrunnum

Þetta eru runnar og í eðli sínu eru þeir því margstofna.
Það má klippa innúr laufinu ef það er nauðsynlegt til minnkunnar, runninn gæti þó tekið nokkur ár að jafna sig til fulls.
Ef runnarnir eru orðnir úr sér vaxnir mætti prófa að klippa þá í trélaga form með því að stofna þá upp. Oft eru börkurinn fallegur og lögun stofnsins sömuleiðis.
Blómstrandi blaðlaufsrunna (lyngrósin) ætti að klippa fljótlega eftir blómstrun. Annað hvort ætti að taka lítið framan af greinum eða taka alla greinina í heild.

Nokkrar reglur á klippingum sígrænna nálatrjáa
                      
Þessi tré eru í eðli sínu ekki margstofna og ráðlagt er að fækka stofnum snemma á uppvaxtarárum trésins niður í einn.               
Ef trén eru orðin úr sér vaxin og ljót gæti verið betra að skipta þeim út, því afar erfitt er að endunýja úr sér vaxin og illa hirt tré. Vegna þess hversu illa þau taka mikilli klippingu. Þess vegna er best að byrja þegar trén eru ung og klippa lítið á hverju ári.
Þegar hliðargreinar eru klipptar inn má aldrei klippa það langt að engar nálar verði eftir á greininni, því þá nær greinin sér aldrei á strik. Hún verður brún og ljót og lýti á trénu.
Hægt er að klippa greni í kúlu, ef til dæmis stofninn brotnar af þunga snjós. Þetta er samt eitthvað sem tekur tíma og þarf að sinna.

Ávallt ber að nota hreinar og vel beittar klippur.

Hægt er að halda stærð grenitrjáa í skefjun með svokallaðri ósýnilegri klippingu, en þá er klippt utan af nokkrum greinum dreifðum um tréð. Þetta er gert lítið í einu á hverju ári. Einnig er gott og fallegt að klippa grenitrén til í keilu, ef þau er orðin of fyrirferðamikil í garðinum. Þetta setur skemmtilegan svip á garðinn og kemur í veg fyrir að maður þurfi að fella trén. Þetta getur þó tekið langan tíma en er þeim mun svipmeira þegar vel til tekst. Sérstaklega er þetta glæsilegt í litlum görðum þar sem plássið er lítið og þar sem fólk tímir ekki að fjarlægja tréð.
Sígræn tré koma mjög vel út í limgerðum og verða mjög þétt og há. Þau eru hljóðeinangrandi og byrgja algerlega sýn inn í garðinn. Þetta á þó aðeins við í stórum görðum, vegna þess að mikill skuggi myndast af þeim.

Blaðrunnana er auðvelt að klippa til í hvert það form sem þú vilt. Þeir eru oft klipptir í dýraform eða mjög formaða runna. Um að gera er að leita sér aðstoðar og ráðleggingar ef eitthvað vefst fyrir manni. Við getum ekki verið sérfræðingar í öllu J
Svo er það bara að fara út í garð og njóta komandi sumars. Gleðilegt sumar.