Er mosinn að kæfa grasflötina?

Mikilvægt að lofta jarðveginn með götun
Mikilvægt að lofta jarðveginn með götun

Hvað er til ráða í baráttunni við mosa í grasflöt?

Margir eru hrifnir af mosa og geta þar með hætt að lesa hér með og hallað sér frekar á mjúkan mosann sinn í garðinum.  Við hin sem viljum frekar leggjast á fallega grasflöt höldum aðeins áfram.  Mosi getur verið hvimleiður í grasflötum fyrir þá sem vilja fallega „gras græna“ flöt. 

En hver eru orsök mosa ?

Léleg vaxtarskilyrði grasa eru kjöraðstæður fyrir mosa í grasflötum. Mosi getur safnast á svæði sem nýtur ekki sólar megnið af deginum sem getur verið skuggavarp frá til dæmis húsi, girðingum eða gróðri.  Vaxtarlagið getur verið mettað af vatni, illa framræst eða þjappaður súrefnislítill jarðvegur.  Samsetning jarðvegs getur einnig ekki verið gott, næringasnauður og oft sambland af þessu öllu saman.  Þá þýðir ekki að rjúka til og dreifa mosaeyði, kalki, áburði og grasfræi án þess að vera búinn að ráðast á rót vandans sem er í lang flestum tilfellum að finna í jarðveginum!

Hvað get ég gert til að bæta jarðveginn og eignast fallega grasflöt ?

Því miður er það staðreynd í lang flestum tilfellum á nýbyggingasvæðum hafa menn ekki byggt rétt upp grassvæðin sem endar oft í ójöfnum og næringarsnauðum grasflötum.  Margar ástæður liggja eflaust þar að baki og ætla ég ekki að útlista þær neitt frekar í þessari samantekt.  Ef grasflatirnar eru ekki rétt upp byggðar þarf einfaldlega að endurgera hana aftur frá grunni. 

Til að losna við eða réttara sagt minnka mosann þá þurfum við að auka þrótt grasana með góðri umhirðu og að búa til kjöraðstæður þar sem við setjum grasið í fyrsta sætið.

Vormánuðir er ágætistími til að koma grasflötinni í gírinn fyrir sumarið.  Svo garðeigendur deyji ekki úr leiðindum við að lesa einhverja ritgerð um ferlið þá set ég þetta í mjög stutta útgáfu og geri ráð fyrir að hægt sé að vinna með núverandi grasflöt.

 1. Krafsið upp mosann með laufhrífu með hvössum tindum eða mosatætara.  Þarna vinnið þið líka á þæfislaginu sem má ekki vera of mikið.

2. Rakið saman mosanum og öðru lífrænum leifum og fjarlægið af flötinni

3. Gatið grasflötina með t.d. garðgaffli eða fáið Draumagarða til að gata flötina með okkar vélum

4. Dreifið jafnt grasfræi með dreifara

5. Dreifið mjög fínum rúnuðum sandi jafnt yfir og sópið því niður í götin

6. Góðan N-P-K áburð yfir allt með áburðardreifara

7. Vökva og halda grasfræjum hæfilega rökum þar til þau spíra.

8. Gangi ykkur vel

Leiknir Ágústsson skrúðgarðyrkjumeistari